Árið 2022 gekk vel hjá UMFG. Það var mjög ánægjulegt að sjá allt starf fara á fullt að nýju eftir covid árin á undan. Nóg var að gera á öllum vígstöðvum, hvort sem það var á keppnisvellinum eða utan vallar.
Þorrablót UMFG var haldið 28. janúar sl. eftir 3 ára pásu. Mikil eftirvænting og gleði var eftir blótinu og mikil aðsókn í miða. Strax var kominn langur biðlisti eftir miðum og var því strax sótt um leyfi fyrir því að færa blótið yfir í nýja salinn. Það leyfi fékkst við það eitt bættust við um 250 sæti of fram fór stærsta Þorrablót í sögu Grindavíkur.
Að venju voru það knattspyrnu – og körfuknattleikdeild UMFG sem sáu um blótið (ásamt þorrablótsnefnd) og gerðu það með eindæmum vel.
UMFG sá um leikjanámskeið um sumarið. Við vorum með 3 fasta starfsmenn og fengum til aðstoðar krakka úr bæjarvinnunni. Starfsmenn fengu eins og áður mikið hrós fyrir vel unnin störf og var mikil ánægja með sumarið. Um 70 krakkar sóttu námskeiðið.
Aðalfundur var haldinn 17. maí og var stjórnin öll endurkjörin. Klara Bjarnadóttir var endurkjörin sem formaður félagsins. Gunnlaugur Hreinsson og Kjartan Adolfsson voru kosnir til 2 ára og Bjarni Már Svavarsson og Ásgerður Hulda Karlsdóttir til 1 árs.
Kosnir varamenn voru Ámundínus Örn Öfjörð, Guðrún María Brynjólfsdóttir og Tracy Vita Horne.
Í október fór stjórnarmaður á Sambandsráðsfund UMFÍ sem haldinn var á Höfn í Hornafirði.
Viðurkenningar og verðlaun fyrir íþróttaárið voru veitt í Gjánni milli jóla og nýárs. Mikil gleði var að geta aftur haft verðlaunahátið fyrir opnu húsi en árin á undan, covid árin, bönnuðu okkur það.
Gerum gott félag enn betra
Margt gott hefur verið gert þó að alltaf megi gera betur. Við erum komin með áhorfendastúku í nýja körfuboltasalinn okkar og er það mikil bylting. Salurinn hefur verið mikið notaður af öllum flokkum félagsins, haldnar hafa verið törneringar og spilaðir margir leikir. Meistaraflokkarnir okkar hafa enn ekki keppt í salnum en það mun breytast í haust.
Búið er að teikna upp og samþykkja nýtt sundlaugarsvæði. Það er virkilega spennandi þó vissulega hefði félagið kosið að ný innisundlaug væri 25 metra löng í stað þess að hún verði 17m löng eins og áform gera ráð fyrir. Við munum halda áfram að halda uppi hagsmunum sunddeildarinnar í hönnun sundlaugarinnar.
UMFG styrkti vel við uppbyggingu á styrktarsal í gamla anddyri íþróttahússins. Það er virkilega spennandi verkefni sem Þorleifur Ólafsson, þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í körfubolta, hefur verið í fararbroddi fyrir. Er það von okkar að hægt verði að nýta þetta húsrými betur fyrir alla iðkendur félagsins og efla styrktarþjálfun.
Helsta baráttumál Knattspyrnudeildar er viðhald á gervigrasi í Hópinu ásamt uppbyggingu í nýjum gervigrasvelli á aðalvellinum. Æfingaaðstaða knattspyrnudeildar er sprungin og 11 manna bolti þarf að leika heimaleiki sína yfir vetramánuði á höfuðborgarsvæðinu. Þessu þarf að breyta og ráðast í uppbyggingu á gervigrasvelli hér í bæ sem allra fyrst.
Skortur á fjármagni
Nú þegar ársreikningar fyrir árið 2022 eru að líta dagsins ljós er okkur í aðalstjórn félagsins ljóst að það vantar meiri fjármuni inn í félagið til að halda úti okkar metnaðarfulla íþróttastarfi, og erum við þar einkum að horfa til barna- og unglingastarfs. Hefja þarf samtal við Grindavíkurbæ á nýjan leik um þann samstarfssamning sem nú er í gildi með það að markmiði að nýr samningur taki við af þeim gamla um næstu áramót.
Að lokum vil ég þakka þeim ótal sjálfboðaliðum sem starfa fyrir félagið. Án þeirra ætti okkar mikla og góða starf sér ekki stað. Við erum einstaklega heppin hér í Grindavík. Það er mikið af frábæru fólki sem er tilbúið til að vinna saman, hjálpa til og gera gott félag enn betra.
Ég fer bjartsýn inn í sumarið 2023. Ég finn fyrir gríðarlegum krafti í félaginu og metnaði til að taka starfið áfram. Ég finn fyrir þessum krafti í bæði afreksstarfinu en einnig barna- og unglingastarfi. Við erum öll að gera okkar besta. Við berum hag félagsins fyrir brjósti, við erum stolt af félaginu okkar og viljum veg Grindavíkur sem mestan.
Ég er þess fullviss að þetta starfsár sem nú er hafið muni vera félaginu gjöfult og að við munum saman taka félagið áfram í rétta átt.
Takk fyrir mig og áfram Grindavík!
Fh. Aðalstjórnar Ungmennafélags Grindavíkur
Klara Bjarnadóttir, formaður

